Bloggfærslur mánaðarins, febrúar 2009

Maður bara á ekki orð

Ef sjálfstæðisflokkurinn hefur eftir allt sem á undan er gengið enn mest fylgi á bak við sig á maður bara ekki orð. Þá held ég að þjóð mín megi bara sitja í súpunni. Ég ætla að gefa þessu séns og taka ekkert mark á þessari könnun.
mbl.is Sjálfstæðisflokkur stærstur
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

EKKI GERA ÞETTA!!!!! HVAÐ GENGUR YKKUR TIL?

Það ætti að vera skylda hverjum Íslendingi að lesa greinargóða úttekt  Indriða Hauks um raunverulegan ávinning af álverum á Íslandi og hvernig stjórnvöld undanfarna áratugi hafa selt landið okkar og auðlindir fyrir klink!  Það er verður örugglega minni virðisauki eftir á landinu af þessu náttúrueyðileggjandi brambolti heldur en af Iceland Airwaves og Listahátíð Reykjavíkur. LESIÐ ÞESSA GREIN!!

Bloggfærsla Indriða Hauks Þorlákssonar um Álver 


Fyrst bloggið hans og síðan alla greinina sem hann hefur á viðhengi eftir skrifin sín.

Hver sá stjórnmálamaður sem ekki hefur lesið þessa grein og skilið, Á EKKI AÐ KOMA AÐ NOKKURRI ÁKVARÐANATÖKU SEM VARÐAR FJÁRHAGSLEGA FRAMTÍÐ LANDSINS.

Ég vil gjarnan eiga orðaskipti við fólk um álver og brýna þörf þess að koma atvinnulífinu aftur í gang en ekki fyrr en það hefur lesið þessa grein spjaldanna á milli.

 Nú er kominn tími á að við hættum þessum vertíðarhugsanagangi sem við erum ekki enn búin að losa okkur við, þessari maníu og skyndilausnum. Við erum ekki þriðja heims framleiðsluríki litað af eymd, volæði, atvinnuleysi menntunar og þekkingarskorti. Kreppuna heima má ekki reyna að leysa eins og það sé verið að bjarga heyji undan rigningu svo allur bústofninn drepist ekki, ekki eins og loðna liggi undir skemmdum ef allt þorpið kemur ekki að hjálpa til, það var ekki hvalur að reka að landi á miðöldum, aldrei aftur "allir í loðdýrarækt" eða "allir í laxeldi" lausnir. Aldrei meira álver sem engu skila í þjóðarbúið.

 Förum nú að hugsa lengur en pissublautir skór, næsti heyskapur eða næsta vertíð. Förum að byggja þetta land upp þannig að við getum stolt skilað því af okkur til komandi kynslóða.

Ég lýsi yfir frati og forundran á þeim ráðamönnum sem hafa staðir að öllu sem viðkemur álverum og orkusölu til stóriðju undanfarið.

 Ef við förum ekki að gera það, þá eigum við ekki skilið að vera sjálfstæð þjóð

Ef ég sé ekki og heyri að VG vinni gegn þessu álveri í Helguvík af heilum hug meiga þeir fjúka á haf út með hinum flokkunum mín vegna 

 

LESIÐ ÞESSA GREIN OG KLÁRUM SVO AÐ HREINSA TIL Í NÆSTU KOSNINGUM!! 

 



mbl.is Álver í Helguvík en ekki á Bakka
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hugvekja frá London

Hér í London er búið að snjóa stanslaust síðan um miðjan dag í gær. Það er kominn um 20 cm jafnfallinn snjór og eins þið getið lesið í blöðum heima er hér allt stopp. Það er ekki laust við að manni finnist það soldið skondið því heima þætti þetta veður með eindæmum gott á þorra, logn, hiti við frost og falleg snjókoma. Ef ég væri heima myndi þessi dagur eflaust renna saman við aðra daga í minningunni sem afar venjulegur dagur. En hér eru allir heima í dag, meðleigjendur mínir eru allir heimavið og hér er bara rómantísk stemmingi. Hugmyndin að búa til snjókall á eftir. Ásýnd Lundúna minnir mig á Ísland, hún er hrein, hvít og róleg, afar ólík sjálfri sér.

Maður hugsar heim.

Það er margt sem bærist í manni. Fyrst áttar maður sig á því hvað við erum seig, Íslendingar og aðrar norrænar þjóðir að, ekki bara bjarga okkur við erfiðar og ómannvænar aðstæður, heldur byggja upp samfélög þar sem lifistandard er með því betra sem þekkist. Ég bý núna í hjarta stórborgarinnar Lundúna, höfuðborgar eins af farsælustu ríkjum sögunnar. Fyrir hundrað árum réðu Bretar, sem ekki eru neitt sérlega stór þjóð þannig, stórum parti af jarðarkringlunni. Hér er mikil saga og menning, ríkar hefðir og hingað flykkist fólk af gervallri jörðinni til að fá að lifa og starfa. Af hverju? Jú það hlýtur að vera vegna þess að hér er gott að vera, gott að vinna og breska þjóðin opin fyrir fólki af erlendum uppruna. Hér fær fólk tækifæri og frelsi. London er ein af þessum borgum þar sem allt er að gerast og allir virðast vilja vera. Hér búa allavega um 9 milljónir, allra þjóða kvikindi eins og sagt er, og mér er sagt að hér séu minnst 2 milljónir óskráðar eða með tímabundið dvalarleyfi eins og ég.

Borgin er yfirfull af fólki.

Ég bý í hverfi sem heitir Clapham og er í suður London, nálægt miðju. Nánar tiltekið í Clapham South, sem er millistéttarhverfi, afar rólegt, notarlegt og eftirsótt.

Um daginn leit útfyrir að par sem býr hér með mér myndi flytja út. Hann er læknir og orðinn þrítugur og hún er leikstjóri sem verður þrítug á árinu. Þau hafa aldrei búið ein og langaði að fara að prufa það. Við auglýstum herbergið þeirra til leigu og umsækjendur þyrptust að til að skoða. Af samtölum við það fólk varð manni enn fremur ljóst hversu heppin við erum, íbúar þessa húss, að búa hér. Lýsingarnar sem þau gáfu okkur á öðru húsnæði sem þau höfðu skoðað voru hreint út sagt viðbjóðslegar flestar og umsækjendur til í að gera flest til að hreppa hnossið og búa með okkur hér á Shandon Road númer 51. Það varð nú reyndar ekkert úr því að parið flytti út, þau fundu ekkert betra sem var innan þess fjárhagsramma sem þau búa við.

Nú segir af Shandon Road 51, húsnæðinu sem við erum svo einstaklega heppin að hafa yfir að ráða.

Leigan fyrir þetta hús er 2300 pund á mánuði eða 377.000 kr á mánuði fyrir utan gas, rafmagn og council tax, sem er nokkurskonar fasteignaskattur sem við greiðum og er um 160 pund á mánuði (um 30.000 kall). Gas og rafmagn hérna er rándýrt og kostar talsverð fjárútlát, sérlega yfir vetrarmánuðina. Fyrir þetta hús hleypur það á nokkrum hundruðum punda fyrir hvort um sig, rafmagn og gas. Það er velskiljanlegt að um 23% breta kynda húsin sín bara alls ekki, þeir hreinlega hafa ekki efni á því og því einnig vel skiljanlegt að gamalt og lasburða, fátækt fólk deyji hér úr kulda inni hjá sér. Húsin hér eru nefnilega afar illa byggð og lítið ef þá nokkuð einangruð. Við hér á Shandon Road leyfum okkur þann munað að setja kyndinguna í gang tvisvar á sólarhring, um 7 leytið á morgnana þegar við vöknum og aftur klukkan 6 um kvöld, til að hér sé ögn hlýrra þegar fólk kemur heim og eldar sér mat og borðar.

Þrátt fyrir þessa kyndingu hlýnar ekkert í húsinu, það er svo illa einangrað að hitinn hverfur út um veggina hafnharðan. 

Í þessu húsi, sem þegar það var byggt, gert fyrir eina fjölskyldu eða svo, eru 5 svefnherbergi, tvær litlar stofur, eldhús og tvö klósett. Það er á þremur hæðum með litlum bakgarði. Hér búum við sex saman, ég, Mastersnemi frá íslandi, Doktorsnemi frá Noregi, fyrrnefnt par, kennari og endurskoðandi. Hver eining hefur yfir sérherbergi að ráða en annað er sameiginlegt. Fyrir þetta greiði ég 450 pund á mánuði fyrir utan áðurnefndan kostnað og telst afar heppinn. í þessu húsi er jafn kalt úti og inni. Ég er heima í dag af því að skólanum mínum var aflýst vegna veðurs. Ég sit í rúminu mínu í ullarsokkum, þykkum buxum, flíspeysu yfir tvenna boli, undir dúnsæng með rafmagndýnu áfullu undir mér og líður ágætlega í ísköldum andvaranum sem er inni í herberginu og anda frá mér móðu. Mér er kallt á puttunum en annars líður mér vel. Hér er einfalt gler í öllum gluggum og engin einangrun. Innvols hússins er afar veðrað og kominn tím á viðhald á flestu, en meðleigjendur mínir vilja alls ekki angra leigusalann okkar með því, af því að leigan hjá okkur er svo hagstæð að ekki borgar sig að rugga bátnum. Þetta hús væri ekki notað fyrir skepnur heima á Íslandi, skal ég segja ykkur. Útihúsin heima í sveitinni minni eru betur byggð en þetta og betur frá þeim gengið. 

Að búa hérna, það er að segja að leigja hérna, minnir mig oft á sögur Þórbergs Þórðarsonar og annarra af hans kynslóð, af aðstæðum í Reykjavík þegar hann kom þangað fyrst, að leigja í köldum risherbergjum og allt það. 

Og hvað lærir maður á þessu? Að búa í þessari draumaborg hins forna heimsveldis, við bestu aðstæður sem venjulegu fólki í borginni býðst?

Að þakka fyrir þann lúxus sem við búum við heima á Íslandi. Það ætti að vera okkur öllum áminning þess hversu spillt við erum orðin af velmegun út á peninga sem við áttum aldrei til, ódýrt lánsfé, hvað við, venjulega fólkið heima á Íslandi búum við góðan kost. Það sem okkur finnst sjálfgefið heima á Íslandi, sérbýli, ódýrt rafmagn og ódýr hiti, 25 stiga hiti innivið allt árið um kring og allir gluggar opnir, er ekki sjálfgefið, það er lúxus. Ég er alls ekki að segja að þannig eigi það ekki að vera, það finnst mér einmitt, ég er að segja, að í allri kreppunni og eymdinni sem við erum að ganga í gegnum heima, er ágætt að minnast þess að við höfum það bara helvíti gott, bara að búa við gott húsnæði, tryggar samgöngur, heilbrigðiskerfi, menntakerfi, frið og frelsi, eru forréttindi. Það er ekki þar fyrir að ekki séu nægir peningar í umferð hérna úti, það er feikinóg af ríku fólki sem býr við allt aðrar aðstæður en ég lýsi. Ég hef alveg búið í húsnæði hér tímabundið sem er sambærilegt við það sem þykir gott heima, en það er svo sannarlega ekki á færi venjulegt fólks að búa þannig eins og þið voandi áttið ykkur á á tölunum frá mínu húshaldi hér. Kannski er kreppan okkar, þótt sársaukafull sé ágæt áminning um það hvaða forréttindi grundvallarbúsetuskilyrði á Íslandi eru. Ég veit að margur er að missa allt sitt og á það alls ekki skilið. En það er líka að verða ákveðin leiðrétting. Ofurlaunastefna og ójöfnuður, einkaþotur, þrír bílar á heimili, tvö mótorhjól, húsbíll og sumarbústaður fyrir 35 ára aldur, er ekki eitthvað sem er hollt eða eðlilegt og svo sannarlega ekki þjóðfélaginu fyrir bestu, kannski útvöldum einstaklingum, en ekki þjóðfélaginu

Mér finnst það gott til að hugsa að heima sé tekin við völdum stjórn sem vill halda í jöfnuð og góð gurndvallarbúseturéttindi handa ÖLLUM heima á Íslandi. Að verið sé að vinna að því að uppræta ofurlaunastefnu og þá fáránlegu hugmyndafræði Hannesar Hómsteins og félaga að það sé þjóðfélaginu fyrir bestu að í því sé ákveðinn ójöfnuður, að til séu ofurríkir einstaklingar sem nýta peninga sína til að fjárfesta og það sé öllum fyrir bestu. Það verður nefninlega alltaf til þess að til verður stétt hinna fátæku, eins og hér í London. Fólk sem er tilbúið að láta bjóða sér hvað sem er fyrir að fá að vera hér og vera með í leiknum. Sem betur fer erum við alin upp við jöfnuð heima og látum ekki bjóða okkur svona lagað, það höfum við sýnt með því að koma fyrrverandi stjórn frá völdum. Hérna úti er fólk alið upp í kynslóðir árhundraða við afar skýra stéttskiptingu og við að hér sé stétt aristókrata, peningafólks annars vegar, og sauðsvartur almúginn hins vegar. Já og vissulega eru til neðri millistétt, millistétt og efri millistétt. En almúginn er bara helvíti ánægður með að eiga fyrir bjór og hafa þak yfir höfuðið þótt ekki sé það merkilegt og ... svo er alltaf vonin, um að komast upp um deild og verða einn af hinum nýríku. Sögurnar um götustrákana sem urðu millar, byrjuðu með tvær hendur tómar og enduðu með alla vasa fulla, drífur margan áfram. En fyrir hvern einn sem kemst þá þröngu braut eru þúsundir, ef ekki milljónir sem reyna en komast aldrei neitt. Hvað verður um þá?

Ég sá þátt um daginn í sjónvarpinu hérna um aðdraganda kosninganna í Bandaríkjunum. Þar var meðal annars farið upp til Montana, þangað sem ríka fólkið nýtur sín á skíðum milli þess sem það hefur auga með fjárfestingum sínum. Þar var tekinn tali einn af ríkustu mönnum Bandaríkjanna og harður stuðningsmaður öðlingsins George W Bush, eins og hann komst sjálfur að orði og sýndi stoltur mynd af þeim hjónum með George og Lauru Bush. Þar lýsti hann yfir áhyggjum sínum af "fáránlegri boðaðri jafnaðarstefnu" Obama, sem hann sagði að myndi hafa afar slæm áhrif á hag hans sjálfs og hans fjárfestingar. (Þið hefðuð átt að sjá heimkynni hans, fleiri þúsund fermetrar af smekklausum óþarfa og íburði, teiknað af konunni hans). Hann trúði á frjálst flæði fjármagns, að markaðurinn myndi alltaf sjá um sig sjálfur og tryggja þann jöfnuð sem nauðsynlegur er í samfélaginu (semsagt það hagkerfi og sú hugmyndafræði sem nú hefur gengið úr sér á eftirminnilegan hátt með engu minna skipsbroti en austantjaldskommúnisminn sálugi) 

Svona útskýrði hann þessa hugmyndafræði fyrir okkur, almúganum sem var að horfa:

"Sko, ef ég á pening, þá eyði ég honum og það hvernig ég geri það er ekki svo mikilvægt, það mun alltaf á endanum vera samfélagin fyrir bestu. Ef að ég vil til dæmis gefa konunni 20.000 dollara stígvél ( ég get svo svarið það hann nefndi þessa tölu, stígvél fyrir 2,4 milljónir) þá get ég það og geri. Það skiptir ekki máli hvað hún gerir við þau, hvort hún elskar þau, fer í þau einu sinni eða hendir þeim beint inn í skáp og sér þau aldrei aftur. Hver er það á endanum sem græðir á þessu? Er það ég? Líklega ekki þar sem ég eyddi 20.000 dollurum í stígvél (hlátur af eigin fyndni). Konan mín? Vonandi verður hún allavega glöð í smástund, en það er ekki það sem er mikilvægt, hún á nóg af stígvélum vort sem er, EN hver er það sem græðir? 

Skókaupmaðurinn! Hönnuðurinn! fólkið sem framleiddi efnið í stígvélin, venjulegt fólk. Þannig virkar hagkerfið."

Það er svona fólk sem fær mig ennþá stundum til að langa til að draga upp haglabyssuna og fara á millaveiðar. Fullkomin veruleikafyrring fólks sem þarf ekki að hafa áhyggjur af neinu því sem venjulegt fólk þarf að hafa áhyggjur af.

Ég stend við það sem ég hef alltaf sagt við vini mína sem hafa lofað nýfrjálshyggjuna og það að stjórnvöld eigi ekki að gera neitt nema að sjá fyrir löggæslu, allt annað eigi að vera einkarekið.

Þannig kerfi er allt í lagi svo framarlega sem allir eru heilir, en hvað á að gera við þá sem detta af gullvagninum? Hvað á að gera við þroskahamlaða, lamaða, fíkla, langveika, gamla osfrv? Á það að vera gróðabisness að sjá um þetta fólk? Nýfrjálshyggja í sinni útópísku og ýktu mynd er ekkert annað en fasismi. Þann dag sem Nýfrjálshyggjupattar hafa hugrekki til að viðurkenna opinberlega að eina leiðin til að kerfið þeirra gangi upp sé að losa sig við þá sem falla af eða bara komust aldrei upp á gullvagninn (eins og Hitler gerði) skal ég kjósa þá. 

Þangað til, eru þeir hugleysingjar sem þora ekki að horfast í augu við eigin hugmyndafræði, vilja bara fleyta af henni rjómann og gleyma restinni í kokteilpartýi með kollegum sínum.

Ég er ekki í nokkrum vafa um að þjóðin mín mun jafna sig á þessu tímabili síðustu 15 ára eða svo og ég og jafnaldrar mínir munum segja barnabörnunum okkar fyndnar sögur af þessu tímabili græðgi og öfgafullrar efnishyggju í nafni frelsisins til að neyta.  Og þau munu hlæja af þeim jafn innilega og ég hlæ af sögum afa míns af uppátækjum hans og vina hans á síldinni á Siglufirði í denn. Ég veit að þjóðfélaginu mun fleyta fram á tækniöld, en vonandi hefur neysluhyggjan slitið barnsskónum og hugarfarsbreyting í vændum. Vonandi leita menn friðar og fullnægju inn á við og í hvert annað frekar en dauða hluti og drasl í framtíðinni. Ég er ekki í nokkrum vafa um það.

Lifum heil og sæl 

 


mbl.is Vetrarveður á Englandi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband