Til Hamingju Ísland

Ég vil þakka þeim kjarna Íslendinga sem undanfarið hefur staðið vaktina eins og hetjur. Herði Torfasyni, Gunnari Sigurðssyni,Merði Árnasyni og fleirum og fleirum. Ég myndi helst vilja telja alla upp en nenni því ekki. Ég gæti líka sagt skoðun mína á einstökum mótmælendum eða aðferðafræði þessa eða hins, en mér finnst það ástæðulaust. Þegar liðið vinnur sigur er maður ekki agnúast út í einstaka mistök leikmanna í hita leiksins.

Að hafa þurft að fylgjast með þessum leikum á netinu frá útlöndum allan tímann hefur verið nánast óþolandi á köflum, en sem betur fer hef ég ekki það sjálfsálit sem sumir af okkar "ástsælustu stjórnmálamönnum" síðustu áratuga virðast hafa, ég veit að ég er ekki ómissandi. Ég veit að án mín getur þjóðin heima bjargað sér. Mikið væri nú sennilega betur komið fyrir okkur ef ákveðnum mönnum liði aðeins meira eins og mér með það, ætli það væri ekki Seðlabanki á Íslandi þótt skipt væri um bankastjóra, það hefur verið gert áður er það ekki?

 Og ég styð það að Jóhanna Sigurðardóttir leiði nýja stjórn. Hvað sem má út á hana setja er hún heiðarleg, vinnusöm og trúir á jöfnuð og heiðarleika, nokkuð sem lítið hefur farið fyrir hjá ríki og borg undanfarið.

En hvað ætlum við að gera? Venjulega fólkið, alþýðan í landinu? Við verðum að muna það að sama hver stjórnar þá verðum við alltaf hér, eða börnin okkar (við gætum náttúrulega öll flutt burt) allavega verður landið okkar hérna áfram og okkur hlýtur að þykja vænt um það.  Höfum við lært eitthvað af þessu? Hvað þá? Mér hefur þótt mikið um það heima, að hver kenni öðrum um og fólk leiti að blóraböggli, og það eru fullkomlega eðlileg mannleg viðbrögð, en fyrst og síðast hljótum við að þurfa að líta í eigin barm hvert og eitt og skoða okkar eigin þátt í málunum, það er alveg ástæða til. Við þurfum nefninlega að ákveða hvernig samfélag við ætlum að hafa heima næstu áratugina, handa börnunum okkar, ekki bara fram að næstu kosningum eða næstu uppsveiflu.

Í fyrsta lagi þurfum við að skoða það hvernig við förum með atkvæðin okkar. Það hefur nefninlega sýnt sig aftur og aftur í gegnum ár og aldir að vald spillir. Það er sama hversu hreinir menn og konur eru þegar þeir leggja af stað á valdabrautinni, allir verða því að bráð fyrr eða síðar. Hugsjón kommúnismans var í upphafi göfug og gekk út á jöfnuð og að fólk réði landi sínu sjálft, en við vitum öll hvernig það fór. Einhversstaðar sá ég Fidel Castro nýlega á lista yfir ríkustu menn heims, það hýtur að segja eitthvað. Undanfarið hefur það komið fyrir að ástandinu heima hefur verið líkt við ástandið í Zimbabwe og þar er nú annar snillingur við völd. En vissuð þið að fyrstu tíu árin í valdtíð sinni náði Robert Mugabe undraverðum árangri? (Zimbabwe öðlaðist sjálfstæði 1980)

However, World Bank report, after independence indicates that:
Zimbabwe gave priority to human resource investments and support for smallholder agriculture," and as a result, "smallholder agriculture expanded rapidly during the first half of the 1980s and social indicators improved quickly." From 1980 to 1990 infant mortality decreased from 86 to 49 per 1000 live births, under five mortality was reduced from 128 to 58 per 1000 live births, and immunisation increased from 25% to 80% of the population. Also, "child malnutrition fell from 22% to 12% and life expectancy increased from 56 to 64. By 1990, Zimbabwe had a lower infant mortality rate, higher adult literacy and higher school enrollment rate than average for developing countries

Þannig að það var ekki eins og hann hafi verið illur frá upphafi, nei, hann bara gat ekki sleppt. Raunar segja sumir að hann hafi bara hálfbilast eftir að konan hans dó 1993 að mig minnir, en hann var á forsíðum blaða hérna úti um daginn fyrir það að andstæðingar hans, sem voru að reyna mynda með honum þjóðstjórn (sem hann hafði lofað að gera) ásökuðu hann um að vilja ekki sleppa takinu á neinu. Það var mynd af honum í ræðustól þar sem hann sagði brjálaður "Zimbabwe is mine" bara eins og Gollum í Hirngadróttinssögu. 

Sjá hér: http://news.bbc.co.uk/1/hi/world/africa/7791574.stm  

 Svona verða menn af því að fá að stjórna óáreittir í 28 ár 

Hvað er Davíð aftur búinn að vera lengi við völd frá því hann varð Borgarstjóri?

Hvað átti hann aftur að hafa sagt við Sigurð bankastjóra í Ameríkunni forðum?

Með þessu er ég svo sannarlega ekk að verja bankastjórana okkar, sem að mínu viti eru algerar mannleysur sem sviku þjóð sína fyrir nýja og merkilegari vini í útlöndum og peninga.

Með þessu er ég heldur ekki að ráðast að persónu Davíðs Oddssonar, ég held að hann sé góður maður sem vill okkur öllum (eða flestum) vel.

Ég er að biðja þjóð mína passa upp á það í framtíðinni að dreifa valdinu. Stundum verður bara að breyta breytinganna vegna, til að hreinsa til. Þa skiptir ekki máli hvort við erum kratar eða blámenn. Það er ekki svo mikill munur á þessum stjórnmálaflokkum þegar allt kemur til alls, við hljótum að fara að læra það. Hér er jafnaðarþjóðfélag eins og alls staðar í kringum okkur og við erum hluti af hagkerfi heimsins sem lýtur ákveðnum lögmálum og við verðum bara að fylgja því. Allt annað er spurning um smáatriði og útfærslur. Jarðgöng eða mislæg gatnamót? Nýjan spítala eða betri nýtingu? 18%stýrivextir eða 16%? Ekki halda að það verði neinar stórkostlega breytingar á högum okkar alþýðunnar á næstunni þrátt fyrir breytingar á stjórnarfólki í brúnni. Það er samt von til þess að ný ríkisstjórn treysti sér til að velta við steinum og að þeir sem ábyrgð beri fái réttláta málsmeðferð.

Látum það aldrei koma fyrir aftur að sama fólkið stjórni landinu í 20 ár!

Aldrei!

Þótt lýðræði sé meingallað fyrirbæri þá er það það skársta sem er í boði ennþá. Enn það er bara skást ef við látum það virka og notum það til að skipta um stjórnendur reglulega og dreifa völdunum.  Við skulum byrja á að líta í eigin rann og átta okkur á því að vald myndi líklega fara alveg ein með okkur og alla aðra og láta síðan af hugmyndum okkar með að fara og hnakkaskjóta valdhafa og fangelsa. Síðan skulum við aðeins fara yfir það hvar okkur sjálfum varð fótaskortur. Síðan skulum við gagnrýna aðra og að lokum sameinast um að byggja upp þjóðfélagið á nýjum/gömlum góðum gildum. 

Við lékum öll með. Allir sem gátu tóku lán, stækkuðu húsið, keyptu annan bíl, fengu sér sumarbústað, borðuðu humar tvisvar í viku, fóru til útlanda þegar þeim datt í hug, voru með yfirdrátt, þáðu kokteilboð hjá ríka og fræga fólkinu ef það bauðst, státuðu sig af útrásarvíkingunum og lifistandardinum hérna osfrv. Öll tókum við á einhvern hátt þátt í þessu. Í það minnst létum við sjálfstæðisflokkinn komast upp með það aftur og aftur í kosningum að vera endurkjörinn á forsendum eins og þessum: "íslenska þjóðin hefur aldrei haft það betra en núna" (og það er rétt hugsuðum við, við höfum aldrei haft það betra en núna) "það er engum örðum en sjálfstæðisflokknum treystandi fyrir fjármálstjórn þessa lands" "Haldiði að þið mynduð hafa það betra ef Vinstri grænir réðu hérna ríkjum"? (haha nehei hugsuðum við, það væri nú bara að fara aftur til ársins 1970) (Hvað, var ekki bara fínt að búa á Íslandi árið 1970, ekki heyrist mér annað á foreldrum mínum). Við leyfðum þessu að gerast. Við kusum þetta yfir okkur aftur og aftur af því að það var svo gaman í partýinu og við áttum svo mikið dót og vorum svo töff klædd og vorum alltaf í útlöndum og vorum bara að eigin áliti best í heimi. Og við kusum að trúa á skipstjórana í blindni af því að það var svo gaman í partíinu og tókum öll þátt í því að segja við erlenda fjármálasérfræðinga og Steingrím Joð og Ögmund og Jóhönnu og aðra sem settu ofan í við okkur "Uss, þegiði, ekki vera svona leiðinleg, það er partý, það er gaman!! Djöfulli eruð þið ómerkileg og öfundsjúk og leiðinleg."

Lýðræði virkar bara ef við látum það virka!

Við leyfðum þeim líka í partýinu að rugla saman stjórnvaldinu þannig að það voru lítil sem engin mörk milli stjórnvalds, framkvæmdavalds, dómsvalds, aðhalds og svo framvegis, það skipti okkur ekki máli af því að við höfðum það svo gott.

Ég ætla að segja ykkur tvö lítil dæmi.

Ég er að læra Gjörningalist hérna í London. Ekki eins og við skiljum hana heima, mér finnst hún hafa soldin geðveikis/fíflagangsstimpil heima. Hérna úti taka menn þetta mjög alvarlega og þetta þykir afar áhrifaríkt og virkt listform.

Ég var að lesa sögu gjörningarlistar í Kína, frábæra bók sem heitir einfaldlega China Live (gjörningalist er yfirleitt kölluð Performance art á ensku eða Live art, ergo titillinn) Þar er farið yfir sögu þessarar listgreinar í Kína. Hvernig henni óx ásmegin eftir því sem eftirliti og ritskoðun jókst. Á áttunda og níunda áratugnum voru kínverskir gjörningalistamenn ofsóttir og fangelsaðir við hvert tækifæri, en þeir voru einnig dýrkaðir og dáðir. Þeir frömdu list sína í kjöllurum og bakherbergjum og allsstaðar var fullt. Í kringum þá störfuðu öflugar andstöðuhreyfingar sem leituðu leiðar til að fella stjórnina og koma á réttlátara þjóðfélagi. Þegar leið á níunda áratuginn varð þessi alda meira og meira áberandi. Listamenn og stúdentar færðu sig upp á skaftið og fóru að sýna andstöðu sína á meira og meira áberandi hátt. Þeim var reyndar gefið undir fótinn með það af Hu Yaobang, formanni kommúnistaflokksins sem vildi í raun auka mál- og skoðanafrelsi í landinu. Hvað sem öðru leið þá neyddi Deng Xiaoping hann til að segja af sér árið 1987, fyrir þér sakir að vera að slaka um of á taumunum. Dauði Hu tveimur árum seinna varð síðan einn af neistunum sem kveikti bálið að mótmælunum Torgi hins himneska friðar vorið 1989. Við ættum flest að muna hvernig þau fóru, og ef ekki ættuð þið að rifja það upp. Við þetta urðu Kínversk stjórnvöld hrædd. Þau vissu að sjálfsögðu hvað alþýðan getur ef hún tekur sig saman. Þeir voru ekki búnir að gleyma því hvernig kommúnistaflokkurinn komst sjálfur til valda. En Deng Xiaoping er náttúrulega snillingur og nú ætla ég að vitna beint í þessa bók China Live.

"Deng had to take people's mind away from politics, and the only way to do that was by enabling people to make more money, that lure to make more money became irresistible for more and more people. welth and pleasure became the keystones to the economy and the catering and leisure industries grew esponentially. It was a slow process but people were replacing idealism with pragmatism. Ten years after 1989, Beijing was a completely changed place. It had become a pleasure-dome for restaurants, karoke bars and massage parlours. The body had replaced the mind as the main focus of attention. For many people physical pleasure had replaced thought, and idealism has largely become the object of contempt and ridicule. The change of agenda from politics to economics was far more subtle than people could realise. The ability to instantly change their lives was so much more powerful than the seemingly empty rhetoric of idealism. the goverment knew that the people wanted to enjoy themselves without the burden of tiresom preachers. They slowly developed an entirely different method of controling artistic content.- by making the margins irrelevant.

Hljómar þetta kunnuglega?

Stuttu seinna í textanu er haft eftir einum af þessum andófslistamönnum að það sé reyndar ágætt við ástandið í dag að hann þurfi ekki að hafa áhyggjur af því daginn út og daginn inn að vera handtekinn og yfirheyrður eða að fjölskyldu hans sé hótað. Nú megi hann gera nokkurn vegin það sem honum sýnist, vandamálið sé bara að það komi enginn lengur að sjá sýningarnar hans, öllum sé sama og finnist bylting og þessháttar kjaftæði leiðinlegt.  Nú séu þeir bara skrítnir listamenn sem séu leiðinlegir og vilji ekki vera með í partýinu.

Var það ekki einmitt í skjóli neyslu okkar og hrifningarvímu sem stjórnvöldum og sniðugum bisnessmönnum leyfðist að gera nokkrun vegin það sem þeir vildu? 

Einhversstaðar, ég bara get ekki munað hvar las ég eftir vitran mann þessa setningu.

"Neo - capitalism is modern slavery".  

Það finnst mér líka. Verðgildi okkar í dag er mælt í neyslugetu. Það er fag í skólum að komast að því nákvæmlega hvað við getum neitt mikil magns. Hvað við séum tilbúin að leggja á okkur til að neyta þessa og hins og þar fram eftir götunum. Markaðs og auglýsingafræði. Og hvar erum við stödd í dag? Við vinnum eins og skepnur (eru ekki íslendingar þeir sem vinna mesta yfirvinnu vestrænna þjóða?) til að eiga fyrir neyslu sem við höfum ekkert við að gera til að geta litið í spegil að morgni og sagt við okkur sjálf að vð séum með í leiknum, séum ekki síðri en hinir í sauma eða jeppaklúbbnum, förum ekki minna til útlanda og eigum ekki minni sumarbústað. Við gleyptum alla beituna. Og þegar það var ekki hægt að ná meira út úr okkur á þeim launum sem við höfðum var farið að lána okkur fyrir neyslunni. Og þegar það var ekki nóg var farið að sannfæra okkur um að við yrðum að eignast allt og gera allt og líka að spara mjög mikið (leggja peninga inn í lífeyrissjóði og banka) til að geta haft það huggulegt sem fyrst, helst hætt að vinna um fimmtugt. Allar leiðir fundnar til að tuska okkur áfram... í neyslu! En bara á svo helvíti klókan hátt. Á þeim forsendum að þetta væri lífið og þetta væri frelsið og þetta væri allt saman það okkur dreymdi um. Og djöfulli var það gaman allt saman. Ef maður hafði milljón á mánuði eftir skatta þá hafði maður efni á neyslu ( á lánum að sjálfsögðu) fyrir 800 þúsund. (húsnæðislán, bílalán, innbúslán og hvað þetta hét nú allt) Þetta var ekki lengur spurning um hvað þú áttir eða hvers þú aflaðir, heldur "fjármagnsflæði eða peningaflæði" og allt á þeim forsendum að hlutirnir gætu bara orðið betri.

"Það er langbest að taka erlend lán ef þú getur staðið af þér smá sveiflur. Ekki það að maður væri nátturulega fokked ef hér færi allt til andskotans en hey! Hvað ætti að klikka ? Afhverju ætti eitthvað að klikka? Ætti þá ekki alveg eins að klikka í Japan eins og hér?" (þetta sagðu vinur minn einu sinni við mig í partýi þegar hann var að reyna að fá mig til að skuldbreyta og eignast meira og útskýra hvernig hann gerði þetta)

Ég heyrði sögu um daginn af fólki sem ég þekki sem var með í leiknum alla leið. Áttu tvo bíla og tvö mótorhjól og risastórt hús sem þau höfðu ekkert við að gera og allt nýtt og allt í botni á erlendum lánum. Þegar að bólan sprakk "áttu" þau enn allt dótið sitt, því enginn vildi kaupa það, áttu ekki fyrir afborgunum eða neinu og áttu ekki fyrir skólamáltíðum handa börnunum sínum. Hugsiði ykkur, að sitja í höllinni með bílana fyrir utan og hjólin í bískúrnunum og allt hitt sem ég ætla ekki að nefna, og eiga ekki fyrir mat handa börnunum sínum, eiga ekkert cash.  Hvað rugl er þetta??

 Við erum semsagt búin að láta glepja okkur af því nákvæmlega sama og Kínverjar. Kannski erum við ginkeyptari fyrir þessu en segjum Japanir (sem spara víst þjóða mest), vegna þess hversu nýrík við erum, vegna þess hversu stutt það er síðan við komum úr torfkofunum. Kannski erum drifin áfram af einhverri minnimáttarkennd yfir því að vera svo stutt komin af fátækri ófrjálsri þjóð sem var aðhlátursefni Dana um nokkrar aldir. Kannski er líka bara búið að hrósa okkur of mikið og segja okkur að við séum fallegust og duglegust og og mest og best miðað við höfðatölu og okkur bara finnst að við verðum að standa undir því. Kannski erum við bara búin að vera allt of dugleg við að segja okkur það sjálf. Kannski erum við bara of fámenn til að ráða við þetta? Smáþorparinn er svo stutt undir yfirborðinu á okkur. Afi minn hefur sagt mér sögur af skaganum þegar hann var að alast þar upp, af kjaftaganginum og hvað fólk lagði á sig til að skera sig ekki út eða láta ekki tala um sig eða, það sem verst var, að fá á sig niðrandi viðurnefni eða jafnvel vísu. Kannski erum við bara allt of upptekin af því að vera betri, ríkari, fallegri og skemmtilegri en fólkið í næsta húsi. Kannski erum við tilbúin að vinna helling aukalega til að eiga flottari jeppa en Jón á móti.

Við allavega, sem þjóð, misstum sjónar af því öllu sem raunverulega skiptir máli í ærslaleiknum við að eignast drasl og hluti. Við eyddum minni og minni tíma með fjölskyldunni okkar, börnunum, ættingjum og vinum. Hugsjónir og framtíðarsýn, samheldni og þjóðfélagsgerð fóru útbyrðis. Við trúðum því að hamingjan væri mæld í utanlandferðum, sumarhúsum og kokteilboðum, ekki í hinum sönnu lífsgæðum. Að slaka á í góðra vina hópi og gera ekki neitt af viti með þeim sem manni þykir vænt um. Við vorum farin að trúa á einkavæðingu grunnþátta samfélagsins af því að við höfðum það "öll"(set öll innan gæsalappa því að að sjálfsögðu var hér fullt af fátæku fólki) svo gott að við trúðum því að við gætum alltaf reddað okkur á eigin spýtur. 

Jöfnuður og valddreyfing er það eina sem gengur til lengdar, það er bara þannig. Ég skora á ykkur að fara yfir landakortið af heiminum. Þar sem mest er fátækt, er mestur ójöfnuður og mest af verulega ríku fólki. 

Hitt sem mig langaði að minnast á  er af baráttu verkalýðshreyfingarinnar Samstöðu í Póllandi. Ég var að horfa á heimildarmynd um daginn um þá atburði og þar kom ýmislegt merkilegt fram. En það sem mér þykir merkilegt í samhengi við atburðina heima á Íslandi er að einn af forkólfunum lýsti því sem gerðist á þessum árum í Póllandi á eftirfarandi hátt ca. 

Í 35 ár var við lýði algert einveldi í Póllandi. Það vald gætti ekki að sér. Það valdi sér fólk í flokkinn og í kringum sig sem var því á allan hátt hliðholt. Það skipti meira máli til að komast í flokkinn og "áfram í þjóðfélaginu" að gangast við því valdi sem fyrir var, að draga það ekki í efa og að vinna með því, gegn "óvinum" þess, sama hver hann var. Þannig urðu til tvö lið í landinum, valdhafar og þeirra stuðningsmenn og ... alþýðan. Smámsaman gleymdist hin kommúníska hugsjón og alþýðan var til fyrir valdhafana, valdhafarnir voru ekki að vinna fyrir alþýðuna. Það sem smámsaman gerðist var það að í liði alþýðunnar varð smámsaman svo mikið til af hæfileikaríku og vel menntuðu fólki (samanber forsprakka Samstöðu) sem enginn hafði áhuga á að fá til liðs við valdhafana, eða að hæfileikaríka fókið vildi ekki ganga til liðs við valdhafana, af því að það var ekki tilbúið að skrifa undir allt sem þar gerðist. Einn daginn brast svo bara stíflan. Það var ekkert í spilunum sem benti til byltingar þá frekar en aðra daga.Upphafið var einfaldlega að Önnu Walentynowicz var sagt upp störfum sem kranamanni í Gdansk skipasmíðastöðinni af því að hún hafði gert athugasemd við það hvernig stjórn starfsmannasamtakanna úthlutaði bónusgreiðslum sem áttu að fara til þeirra sem fyrir þeim höfðu unnið, einungis meðal stjórnarmannanna. Við þessu sagði hún nei, var rekin og alþýðan, verkamennirnir fengu nóg og stóðu með henni. 

Kannski er eitthvað svipað að gerast heima?

Vonandi.

Vonandi erum við ekki bara fúl yfir því að einhver tók allt dótið af okkur, lokaði partýinu og rak alla út. Ég vona svo sannarlega að við ætlum að taka okkur sjálf í gegn og bakka aðeins. Finna hvað það er gott að vera Íslendingur af því að þar eru allir því sem næst jafnir. Allir þekkja alla. Af því að við höfum landrými  og nálægð hvert við annað sem gerir okkur kleyft að vera samheldin en þó frjáls og útaf fyrir okkur þegar við viljum það. Ég vona að við endurskoðum okkar eigin gildi áður en við höldum áfram. Við verðum að gera það. Afi minn og amma, sem bjuggu í bröggum og torfkofum eru að verða 88 ára. Kynslóðin sem man hvernig það var að búa hér í ófrjálsu landi er að hverfa og við sem höfum við hana tengsl verðum að sjá til þess að hafa í heiðri arflefð okkar. Komandi kynslóðir muna (upp til hópa) ekki hafa upplifað skort heldur auðlegð, ekki þá baráttu sem háð var fyrir því að komast þangað sem við erum komin. Það er ekki sjálfsagt að við séum þar. Það ættum við að vita núna, tæknilega gjaldþrota þjóð.

Ef við viljum fara í ESB þá vona ég að það sé á þeim forsendum að við viljum að hér ríki meiri jöfnuður og árverkni í fjármálum, að hér sé eftirlit frá stærri aðila með stjórnunarháttum hér. Að það þjóni svipuðum hagsmunum og sameining hreppa og sveitafélaga, að setja stjórnun landsins í stærra samhengi og að taka stjórnmál hér af persónulegum nótum, þar sem vinagreiðar og flokkadrættir víkji fyrir almenningshagsmunum. Ég vona að við séum ekki að sækja um í ESB til að eignast stóra bróður sem á að bjarga okkur og láta okkur hafa peninga svo við getum fengið dótið okkar aftur og haldið áfram að vera í partýí. Ef það er drifkrafturinn, þá held ég að við höfum gott af því sem þjóð að koma okkur út úr okkar for á eigin spýtum.

Ísland er frábær staður. Ég elska landið mitt, fjölskylduna mína, bóndabæinn minn, vini mína og íslensku þjóðina ... þegar hún stendur saman og safnar peningum handa fórnarlömbum snjóflóðanna á Súðavík og Flateyri og handa fátækum í Afríku. Ég elska að þar eigi allir jafna möguleika til menntunar og heilbrigðisþjónustu. Að ég þurfi bara að hringja eitt símtal til að fá gsm númerið hjá forsetanum og að þar til nú nýlega þurfi enginn að vera með sérstaka öryggisgæslu eða hafa miklar áhyggjur af því að vera rændur eða skotinn.

En ég verð að viðurkenna það að mér hefur á stundum undanfarin ár, ekki fundist neitt sérlega gaman að því að vera íslendingur og fátækur listamaður í Reykjavík. Ég átti gamlan bíl 1996 módel, sem ég seldi á 25.000 kr áður en ég fór út, og tveggja herbergja íbúð á íbúðasjóðslánum og ég þótti bara frekar púkó. Mér þótti ég sjálfur oft frekar púkó, að vera ekki með í leiknum. Ég er ekki að reyna að hefja mig upp á neinn hátt með að segja þetta, en ég er náttúrulega feginn núna. Ég sá þetta ekki fyrir og hrópaði ekki varnaðarorð á torgum úti. Það var bara ekki séns fyrir mig að vera með á óreglulegum og lágum tekjum, annars hefði ég örugglega spilað með.

Ég hlakka til að koma aftur heim í nýtt betra landslag, og vona að ég eigi eftir að spila meira á spil með vinum mínum, ríða meira út með fjölskyldunni minni og skapa meira af list sem er á æðra plani en að vera afþreying fyrir fólk sem hefur bara áhuga á að eignast meira dót, græða meiri pening og vinna meira. Við erum svo miklu betri en neysla okkar undanfarið segir til um. 

Áfram Ísland (best í heimi)

Og aftur til hamingju með að alþýðan láti ekki vaða yfir sig. Það þurfti mikið til en stundum er það bara þannig.

Til Hamingju 

  

 


mbl.is VG leggur línurnar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Stefán Óli Sæbjörnsson

Alþýðan er einmitt að láta vaða yfir sig. Okkur tókst að knýja fram kosningar, en við sitjum uppi með kosningabandalag sem  sækir um umboð forseta til myndunnar á nýrri ríkisstjórn og hún má sitja næstu 2 árin. Samfylking,Vinstri grænir og framsókn. Þetta mun ég kalla "plotta" ríkisstjórnina 2009.Sem hafði okkur að háð og spotti.

Stefán Óli Sæbjörnsson, 26.1.2009 kl. 23:37

2 identicon

Þetta eru ekki góðar fréttir. Ég mætti ekki í mótmæli til að knýja þetta fram. Síður en svo

Þórður Möller (IP-tala skráð) 26.1.2009 kl. 23:40

3 identicon

Hvaða hvaða. Það verða kosningar, meir að segja fyrir 9.maí. Komandi ríksstjórn veit sem er að þjóðin lætur ekki vaða yfir sig.

Elvar Geir Sævarsson (IP-tala skráð) 26.1.2009 kl. 23:50

4 Smámynd: Gunnar Þór Gunnarsson

Fólk eins og þú ....... ert velkomið aftur heim til Íslands hvenær sem er!

Takk fyrir frábæra grein.

kv.

Gunnar Þór.

Gunnar Þór Gunnarsson, 26.1.2009 kl. 23:51

5 identicon

Frábær pistill hjá þér Guðmundur, lesning sem getur ekki annað en vakið mann til umhugsunar.

Hlynur Bjarki Karlsson (IP-tala skráð) 27.1.2009 kl. 00:14

6 identicon

Til hamingju gamli.

þín er saknað vinur,

góð grein.

 of þreyttur til að tjá mig frekar eftir þessa viku, sjáumst í mótmælunum.

Starri Hauksson (IP-tala skráð) 27.1.2009 kl. 00:28

7 Smámynd: Hinrik Þór Svavarsson

jedúddamia

ég get svo svarið það gummi ég grét næstum , mér fannst eins og ég væri syndandi um í hjartanu á þér!

ég elska þig líka..og ég elska Ísland

Hinrik þór..  

Hinrik Þór Svavarsson, 27.1.2009 kl. 02:52

8 identicon

Sæll frændi,

sannarlega innblásin grein hjá þér og einlæg, þrungin speki og visku. Maður veit sannarlega ekki í hvernig fót maður á að stíga þessa dagana, grænann og vænann, rauðan og þrútinn eða bláan og marinn. Ég get ekki verið annað en sammála útgangspunkti þínum um að vald spilli, sagði Konfúsíus ekki "Lýðræðislegt vald er eins og pönnukökubakstur, þú þarf að skipta um hlið reglulega... annars brennur það við".

Jóhann Vignir Gunnarsson (IP-tala skráð) 27.1.2009 kl. 03:12

9 Smámynd: Guðmundur Ingi Þorvaldsson

Þakka ykkur, gaman að geta verið með ykkur í ræðu og riti þótt skrokkurinn sé í Tjallalandi. Já Jóhann frændi, þetta er náttúrulega kjarni málsins, er ekki magnað hvað kallinn Konfúsíus var oft laginn við að hitta naglann beint á hausinn

Áfram nýtt Ísland

Gummi 

Guðmundur Ingi Þorvaldsson, 27.1.2009 kl. 12:17

10 identicon

Sæll vinur minn!

Þetta var langt en hollt að lesa. Ég er svo innilega sammála þér um gildismatið og ég get bara sagt þér að mjög margir hérna heima eru farnir að endurskoða líf sitt. Og veitir ekki af. 

Pant bjóða þér í kaffi þegar þú kemur næst heim. Ef það verður þá eitthvert heim :) 

Tryggvi Már (IP-tala skráð) 27.1.2009 kl. 17:55

11 Smámynd: Guðmundur Ingi Þorvaldsson

Það verður heim og kaffið verður þegið

bestu kveðjur þér og þínum

Gummi 

Guðmundur Ingi Þorvaldsson, 27.1.2009 kl. 19:50

12 identicon

Heyr heyr!

Þetta var svo sannarlega holl og góð lesning!

Við söknum þín hérna heima, sjáumst vonandi sem fyrst.

Knús frá okkur öllum hér á Álftanesi.

Erla Lilja og fjölskylda

Erla Lilja (IP-tala skráð) 29.1.2009 kl. 15:21

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband