Að vera utanveltu
21.1.2009 | 17:18
Já ég er að manna mig upp í að taka þátt í þjóðmálaumræðunni heima með því að fara að blogga. Það er líklega eina raunhæfa leiðin héðan frá London. Ég er búinn að reyna að sætta mig við að taka ekki þátt í henni af ýmsum ástæðum. Í fyrsta lagi hef ég reynt að segja mér að ég eigi að einbeita mér að náminum, það sé hvort eð er ekki úrslitaatriði fyrir Ísland hvort ég tek þátt í þessu orðaskaki heima eða ekki. Í öðru lagi hefur mér fundist hún einkennast af persónulegu skítkasti manna á milli og ég hef engan sérstakan áhuga á að standa í því. Það er raunar það sem mér hefur aldrei hugnast við stjórnmál og stjórnmálaumræðu, það hvað hún virðist snúast mikið um að níða skóinn af náunganum til að sína fram á eigin ágæti. Í þriðja lagi er bara hreinlega erfitt að setja sig inn í aðstæðurnar heima og mér hefur fundist eins og af þeim sökum sé ég ekki til þess fallinn að taka beinan þátt.
En ég verð að vera með. Ég hugsa mikið heim og hef miklar skoðanir á málunum. Ég held að það sé betra að vera með hér heldur en að skammast í kærustunni hérna úti og þeim fáu íslendingum sem ég hitti. Það er vissulega ekki eins að vera hérna úti og að vera heima en það er samt ekkert síður áþreifanlegt. Að vera hérna þegar að það að segjast vera íslendingur breytti viðbrögðum viðmælenda úr "ohh Björk, Sigurrós, Geysers, nightlife, beautiful nature" í "ohh shit, financial crisis, icesave, kaupthing edge" Við erum frægari hér en nokkru sinni síðan á víkingatímum og ekki af góðu. Englendingar sem ég þekki og umgengst hafa tapað peningum en vita sem er að ekki er við mig eða aðra námsmenn að sakast. Ég umgengst reyndar upp til hópa réttsýnt og vel upplýst fólk, en ekki myndi ég hætta mér einn inn á bar í Blackpool og hrópa yfir allt að ég væri Íslendingur.
Ég var hér úti þegar að maður vissi aldrei þegar að maður vaknaði hvort að gengið stæði þannig námslánin dyggðu fyrir leigunni eða hvort hægt yrði að millifæra peninga frá Íslandi hingað út. Það er bara þannig og frá því sjónarhorni mun ég reyna að blogga, málefnalega, án persónulegs skítkasts um það sem skiptir mig máli og að mínu viti skiptir okkur öll máli.
Ég er að læra á þetta blogg dæmi og ætla að sjá hvort þetta birtist og svo framvegis
Ísland!
Gummi
Athugasemdir
Gaman að sjá þig Gummi og gott að vita að þú ætlir að vera málefnalegur - of lítið af svoleiðis, of mikið af hinu. Þessi fyrsta færsla þín birtist svona líka vel...
Sveinn Tryggvason, 25.1.2009 kl. 23:34
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.